Edda var ánægð með að liðið gafst ekki upp og héldu áfram að reyna að spila góðan fótbolta þó að staðan væri orðin erfið í leiknum í dag.
“Við missum svolítið dampinn þarna í korter, tuttugu og fengum það í bakið. Stjarnan er með sterkt lið og frábærar fram á við. Ef maður sofnar pínulítið á verðinum þá er manni bara refsað,” sagði Edda Garðarsdóttir eftir 1-5 tap gegn Stjörnunni í dag.
Lestu um leikinn: KR 1 - 5 Stjarnan
“Það er erfitt að rífa sig uppúr þessu þegar það er komið í 3-1 en við erum í raun hættulegar fram á við undir lokin og gefumst aldrei upp. Það er það sem við verðum að taka með okkur. Fyrir tveimur árum eða jafnvel í byrjun tímabils þá vorum við ekkert að spila góðan fótbolta á móti svona sterkum liðum en við erum að gera það í dag og maður verður að taka þetta bara skref fyrir skref. Ég horfi á framfarirnar í mínu liði. Tvö eitt eða fimm eitt skiptir ekki máli, við tókum bara sénsinn að reyna að skora og spila áfram góðan fótbolta,” bætti Edda við.
Samkvæmt Eddu mun KR mögulega missa einn leikmann í háskólaboltann í Bandaríkjunum áður en deildin hefast að nýju í ágúst en að sama skapi mun liðið endurheimta Katrínu Ómarsdóttur úr meiðslum. En mun Edda leita eftir utanaðkomandi liðsstyrk í félagsskiptaglugganum?
“Við verðum að skoða okkar leiki og skoða í eigin barm aðeins betur núna. Þegar þessi pása kemur þá höfum við meiri tíma til að gera það. Kannski, kannski ekki, ég veit það ekki. Ég ræð því kannski ekki alveg sjálf.”
Viðtalið í heild sinni má sjá í sjónvarpinu hér fyrir ofan.
Athugasemdir