FH-ingar urðu í gær Íslandsmeistarar í áttunda skipti en þetta varð ljóst eftir að Breiðablik og ÍBV gerðu 1-1 jafntefli í 20. umferð Pepsi-deildarinnar. Blikar þurftu sigur til að halda titilbaráttunni á lífi en niðurstaðan varð jafntefli.
Leikmenn FH voru staddir á mismunandi stöðum þegar að titillinn kom í hús í gær. Bergsveinn Ólafsson var að læra í Háskólanum í Reykjavík.
Leikmenn FH voru staddir á mismunandi stöðum þegar að titillinn kom í hús í gær. Bergsveinn Ólafsson var að læra í Háskólanum í Reykjavík.
„Þetta var steikt. Maður var að reyna að halda einbeitingu í að læra en það gekk brösulega. Maður var á refresh takkanum eiginlega allan tímann. Ég var að læra á hæð sem má ekki tala mikið á svo ég stökk úr sætinu og fór inn á klósett þar sem ég fagnaði einn með sjálfum mér," sagði Bergsveinn í viðtali við Fótbolta.net í dag.
Bergsveinn og liðsfélagi hans Emil Pálsson mættu í viðtal hjá Fótbolta.net í dag en það má sjá hér að ofan. Emil var sjálfur að versla þegar titillinn var tryggður.
„Ég ákvað að rölta í Krónuna og pæla ekki alltof mikið í þessum leik. Á endanum náði ég ekkert að versla. Ég var á refresh takkanum og sem betur fer náði ÍBV að halda þetta út," sagði Eml brosandi.
„Það var ekkert að frétta í stúkunni"
Slegið var upp titilpartý í Kaplakrika í gær þar sem bræðurnir Jón Ragnar Jónsson og Friðrik Dór Jónsson héldu uppi stemningunni. Faðir þeirra, Jón Rúnar Halldórsson, er formaður knattspyrnudeildar FH og hann er manna ánægðastur með titilinn.
„Maður sér hann hlaupandi um í stúkunni. Hann er meira stressaður en við að landa þessum titli. Ég held að hann sé ánægðastur í dag," sagði Emil.
Pepsi-deildin í sumar litaðist talsvert af hléi í kringum EM í Frakklandi. Emil segir að stemningin á völlunum í sumar hafi ekki verið jafn góð og oft áður.
„EM spilaði stórt hlutverk þar inn í. Þegar mótið var í gangi í júní var eins og þú værir að spila síðustu umferð í Lengjubikarnum. Það var ekkert að frétta í stúkunni. Það hafði áhrif á leikinn. Það er alltaf gaman að spila þegar er stemning í stúkunni og það vantaði hana í sumar," sagði Emil.
Þakkaði Árna Vill fyrir að klúðra
FH fór langt með að landa titlinum um þarsíðustu helgi þegar liðið gerði jafntefli við Breiðablik sem er í 2. sætinu. Árni Vilhjálmsson kom Blikum yfir í leiknum eftir að Bergsveinn tapaði boltanum. Fyrr í leiknum hafði Árni skotið yfir úr dauðafæri en þá tapaði Bergsveinn einnig boltanum klaufalega.
„Þetta var svo steikt. Ég man ekkert eftir þessu. Ég man að ég þakkaði Árna fyrir að klúðra í fyrra skiptið. Ég var feginn þá. Síðan skeit ég aðeins aftur en menn gera mistök í þessu og það snýst um hvað menn gera eftir mistökin og hvernig menn tækla þau," sagði Bergsveinn.
Bergsveinn er á sínu fysta tímabili með FH en hann kom til félagsins frá uppeldisfélaginu Fjölni síðastliðið haust. Bergsveinn segist hafa bætt sig mikið hjá FH.
„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna mína á tímabilinu ef maður tekur heildarmyndina. Það er geðveikt að vera í FH. Þetta er flottur og góður klúbbur. Ég tel að ég sé töluvert betri leikmaður núna en fyrir ári síðan. Það er búið að kenna mér margt. Við verjumst aðeins ofar á vellinum og það eru öðruvísi áherslur sem maður þarf að hafa á hreinu."
Búinn að skora meira núna en í fyrar
Emil lék með Bergsveini í nokkrar vikur í fyrra þegar hann var á láni hjá Fjölni. Hann snéri svo aftur í FH, hjálpaði liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn og var valinn besti leikmaður mótsins. Í janúar á þessu ári reyndi portúgalska félagið Belenenses að krækja í Emil en án árangurs.
„Þetta var eiginlega aldrei neitt. Það kom skítatilboð frá þeim sem FH var ekki tilbúið að taka. Ég var í raun aldrei kominn á þann stað að ég væri að fara út. Það hefði verið frábært tækifæri fyrir mig að fara beint frá Íslandi til Portúgals. Það hefði verið risaskref. Ég er samt ekki að svekkja mig á því sem hefði getað gerst. Ég reyni að standa mig í því sem ég er að gera hverju sinni," sagði Emil sem er ánægður með sumarið hjá sér.
„Ég er frekar ánægður með tímabilið mitt í sumar. Það er öðruvísi að koma inn í þetta tímabil eftir að hafa verið bestur í fyrra. Það er kannski meiri pressa sett á mann núna en eina pressan hjá mér er pressan sem ég set sjálfur á mig. Ég er búinn að skora fleiri mörk núna heldur en í fyrra og það var eitt af markmiðunum sem ég setti fyrir tímabilið. Heilt yfir er ég sáttur."
Emil er búinn að skora fimm mörk í Pepsi-deildinni sumar en þar af eru þrjú sigurmörk í 1-0 sigrum. Þá skoraði hann þrjú mörk í Borgunarbikarnum. „Aukaæfingarnar með Lauga (Guðlaugi Baldurssyni, aðstoðarþjálfara) eru að skila sér. Ég er farinn að skora meira með fótunum. Ég skoraði bara með hausnum í fyrra," sagði Emil ánægður með markaskorunina.
Hér að ofan má sjá viðtalið við Bergsvein og Emil í heild sinni.
Athugasemdir