Rúnar Kristinsson þjálfari KR var í skýjunum eftir 2-1 dramatískan sigur liðsins gegn Val í dag.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 Valur
„Hún var mjög ljúf. Ánægjulegt fyrir Stefán og okkur KRinga að vinna Val, erkifjendur og skora svona mark á síðustu sekúndu er alltaf gaman, sjálfsagt jafn leiðinlegt fyrir andstæðingana," sagði Rúnar Kristinsson aðspurður hvernig hafi verið að sjá boltann í netinu á síðustu sekúndu leiksins.
Rúnar var spurður að því hvort það væri skemmtilegra að vinna Val en önnur lið.
„Nei, mér finnst alltaf gaman að vinna fótboltaleiki. Það var ekki mikið undir í dag og það sést á leik liðana, menn eru svolítið kærulausir oft, hlaupa ekki alveg á 100 til baka. Sama hvað maður er búinn að ræða hlutina, leggja á sig vinnu, spila fyrir stoltið og allt það að þá læðist alltaf inn í hausinn á mönnum 'ég ætla spara mig aðeins núna', fyrir vikið verður þetta opinn leikur en við stálum stigunum hér í restina,"
Rúnar var ánægður með fyrstu 25 mínúturnar í leiknum en liðið hafi slakað full mikið á.
„Sama má segja um hluta Vals liðsins. Leikurinn verður fram og til baka, það verða opnar stöður sem hvorugt liðið nýta sér almennilega fyrr en í lokin," sagði Rúnar.