
„Þetta er einn stærsti leikur sem íslenska landsliðið hefur spilað í mörg ár," sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, betur þekkt sem Adda, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Framundan er gríðarlega stór leikur hjá kvennalandsliðinu þar sem stelpurnar okkar mæta Portúgal í umspilinu fyrir HM. Leikurinn fer fram á morgun.
Framundan er gríðarlega stór leikur hjá kvennalandsliðinu þar sem stelpurnar okkar mæta Portúgal í umspilinu fyrir HM. Leikurinn fer fram á morgun.
Þetta er hreinn úrslitaleikur þar sem sigurliðið kemur til með að vinna sér sæti á HM sem fram fer á næsta ári - eða þá inn í annað umspil sem fram fer í Nýja-Sjálandi í febrúar á næsta ári.
„Þetta leggst mjög vel í mig," segir Adda.
Stærstu tíðindin fyrir æfinguna voru það að Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, var ekki með vegna veikinda sem eru að hrjá hana. Adda hefur samt sem áður fulla trú á því að Sara spili á morgun.
„Auðvitað er ekki gott fyrir hana að æfa ekki daginn fyrir leik, en ef það hefur ekki áhrif á einhvern þá er það Sara Björk. Ég hef ekki áhyggjur að það hafi áhrif á morgun," sagði Adda.
„Auðvitað hefði maður viljað hafa hana á æfingu í dag, en ég hugsa að þetta séu varúðarráðstafanir."
„Alveg 100 prósent," sagði hún aðspurð að því hvort hún haldi að Sara spili á morgun.
Portúgalska liðið er sýnd veiði en ekki gefin. „Þetta er bara gott lið. Seinustu ár hafa þær tekið miklum framförum. Við sáum á EM hversu góðar þær eru. Fyrir leikinn erum við hærra skrifaðar, en þær eru góðar. Þetta verður hörkuleikur."
„Maður er í þessu fyrir svona stundir. Þær eru búnar að spila nokkra stóra leiki upp á síðkastið og margar þeirra hafa spilað leiki af þessari stærðargráðu. Ég held að þetta sé fyrst og fremst gaman. Maður finnur að það er stemning í hópnum. Þær eru búnar að bíða lengi, búnar að vera saman í viku. Þær hefðu auðvitað viljað tryggja þetta fyrir mánuði síðan en fá annað tækifæri á morgun."
Hægt er að sjá allt viðtalið hér að ofan en þar að ofan ræðir Adda meira um leikinn. Hún greinir svo frá sinni spá fyrir leikinn í lok viðtalsins.
Athugasemdir