Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, leikmaður Leiknis, var ekki als kosta sáttur við dómgæsluna í 4-2 tapinu gegn FH í Bestu deildinni í dag, en hann fékk á sig víti eftir sextán mínútur.
Lestu um leikinn: FH 4 - 2 Leiknir R.
Leiknismenn lentu tveimur mörkum undir snemma leiks áður en liðið kom til baka með marki frá Zean Dalügge.
Matthías Vilhjálmsson bætti við tveimur til viðbótar í þeim síðari og kláraði þrennu sína áður en Leiknismenn klóruðu í bakkann með sárabótarmarki.
„Ætluðum að byrja mun betur og komum ekki með power í leikinn og vorum smá sofandi. Þegar þeir voru með yfirtökin fyrstu tuttugu mínúturnar en svo komumst við inn í leikinn og létum boltann ganga vel. Hefðum viljað skapa aðeins meira fram á við en annars frekar jafn leikur. Í seinni hálfleik voru þeir aðeins betri fyrstu fimmtán og svo tökum við yfir leikinn en við náum ekki að koma boltanum yfir línuna og þeir ná því tvisvar. Vel gert hjá þeim," sagði Gyrðir við Fótbolta.net.
Á 16. mínútu fékk Gyrðir dæmt á sig víti eftir baráttu við Matthías í teignum. Hann skilur ekkert í dómgæslunni.
„Mér finnst það galið. Ég sparka í boltann og boltinn fer þangað sem ég er að sparka og ég veit ekki hvernig Matti getur sparkað þangað en þetta er galið. Aldrei víti finnst mér.
„Hann hendir sér niður eins og stunginn grís. Þetta er galið og dómarinn á að sjá þetta. Boltinn fer greinilega þangað og maðurinn getur ekki sparkað þangað. Kannski lélegt hjá dómaranum en leiðinlegt," sagði Gyrðir.
Hann segir jafnframt að liðið hafi ekki verið að fylgja uppleggi í byrjun leiks en það hafi lagast. Nú er það að bretta upp ermar og gera sig klára fyrir síðustu þrjá leikina en Leiknir er í næst neðsta sæti með 20 stig.
„Jújú, við vorum alveg að fylgja uppleggi en vorum í brasi með að koma honum upp. Eftir tuttugu mínútur fór boltinn að ganga betur eftir að við fórum að senda boltann aftur fyrir þá og þeir í basli með það. Við héldum bara áfram að gera það og uppleggið gekk allt í lagi. Siggi lagði hann vel upp."
„Það eru þrír leikir eftir og næst Skaginn heima. Þrjú stig sem við þurfum að taka svo Fram. Þetta er ekki búið; nei, nei, nei," sagði hann í lokin.
Athugasemdir