Sigurvin Ólafsson, þjálfari FH, var ánægður með viðbrögð leikmanna eftir 2-1 tapið í Vestmannaeyjum en liðið er nú komið úr fallsæti eftir að hafa unnið Leikni, 4-2, á Kaplakrikavelli.
Lestu um leikinn: FH 4 - 2 Leiknir R.
FH-ingar pressuðu Leiknismenn hátt upp og uppskáru tvö mörk á fyrstu 17 mínútum leiksins.
Liðið hefur verið í miklu basli með stigastöfnun en þessi leikur skipti gríðarlega miklu máli að koma sér ágætlega fyrir í fallbaráttunni. Nú er FH með 22 stig, tveimur stigum fyrir ofan Leikni þegar þrír leikir eru efti.
„Jájá, það er svosem ekkert hægt að neita því að þetta er léttir en á sama tíma ætluðum við að vinna og reiknuðum með að vinna. Þannig ég er ekkert hissa og þegar við erum í keppni um að halda okkur í deildinni þá telja þessi stig rosalega mikið."
„Í Eyjum um daginn sá ég ekkert sérstakt þreytumerki í liðinu og við treystum okkur fyllilega að byrja þennan leik alveg á fullu og pressa þá upp. Það tókst mjög vel og þið sáuð að strákarnir hlaupa sig alveg niður í krampann. Menn eru að leggja líf og sál í þetta og fullt kredit á strákana."
„2-0 fannst mér vera á leið í 3-0 en svo kemur 2-1 upp úr engu og það er alltaf högg að fá á sig mark. Tala nú ekki um með þetta sumar á bakinu að menn fá 'mini' áföll en það er ekk eins og við höfum koðnað eða eitthvað svoleiðis. Við héldum auðvitað áfram og Leiknismenn eru auðvitað í beinni samkeppni við okkur þannig þeir sjá fyrir sér að ef þeir tapa leiknum þá eru þeir komnir í fallsæti þannig þeir gáfu í. Flottir strákar í Leikni og gott lið. Við áttum í vök að verjast inn á milli en alltaf tilbúnir að herja á þá í skyndisóknum, refsa og klára þennan leik."
Matthías Vilhjálmsson steig upp og skoraði þrennu fyrir FH en hann segir að þetta sýni úr hverju menn eru gerðir.
„Þetta er auðvitað móment til að stíga upp og sýna úr hverju maður er gerður. Matti er sannur leiðtogi sem stóð undir því."
Sigurvin og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við FH um mitt sumar en þar áður hafði Sigurvin verið í teymi Rúnars Kristinssonar hjá KR-ingum. Hann er aðalþjálfari FH í næstu leikjum þar sem Eiður hefur stigið tímabundið til hliðar til að vinna í sínum málum.
„Lífið er yndislegt. Það er gaman að takast á við það hvernig hlutirnir breytast og það er bara fínt og skemmtilegt. Að ég eigi að bjarga einhverju hérna, en í grunninn eru það strákarnir sem redda þessu og ég er að byggja einhvern ramma og halda öllum góðum."
Næst fer FH til Keflavíkur á erfiðan útivöll en Sigurvin segir að mótið sé hvergi nærri búið enda þrír erfiðir leikir eftir.
„Ég veit ekki hvernig þurfum að snúa okkur í því en með einhverjum göldrum þurfum við að breyta Keflavíkurvelli í Krika þannig við náum í úrslit í dag. Þó við höfum unnið í dag þá er þetta hvergi nærri búið," sagði hann í lokin.
Athugasemdir