
„Það er tómleikatilfinning, ég var ekki búin að sjá þetta fyrir mér," sagði Glódís Perla Viggósdóttir varnarmaður Íslands eftir 4 - 1 tap gegn Portúgal í umspili um sæti á HM 2023 í kvöld.
Lestu um leikinn: Portúgal 4 - 1 Ísland
„Ég var búin að sjá fyrir mér að við færum heim í dag og fögnuðum því að vera komnar á HM. Þetta var gríðarlega svekkjandi en mér fannst við spila samt spila þennan leik vel eftir að við lentum einum færri. Ég er stolt af stelpunum og hjartað mitt fer til Mundu, greyið! sagði hún en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk að líta rautt spjald og dæmt á sig víti á 55. mínútu og úr því kom fyrsta mark leiksins.
„Þetta var ekki rautt spjald og ótrúlega ósanngjarnt og leiðinleg niðurstaða í dag. Hreinskilið finnst mér vandræðalegt að hún eigi að vera besti kvendómari í heimi ef hún þarf að fara í skjáinn yfir öllum vafaatriðum sem gerast í leiknum. Mér finnst það bara lélegt. Ég veit ekkert hvað er dæmt á þegar markið er dæmt af okkur, skil það ekki. Svo fáum við þetta víti á okkur, Áslaug Munda myndi aldrei á ævinni hrinda leikmanni. Það getur ekki verið að þetta hafi verið rautt spjald. Mér fannst þetta léleg lína og hún ekki höndla þennan leik."
Nánar er rætt við Glódísi í spilaranum að ofan. Hún segir þar skammarlegt hvernig staðið er að umspilinu þar sem Ísland fær bara útileik án þess að vita hvar hann fari fram nema með stuttum fyrirvara.