
„Ég er ótrúlega svekkt og vonsvikin," sagði Sandra Sigurðardóttir markvörður Íslands eftir 4 - 1 tap gegn Portúgal í umspili um sæti á HM 2023 í kvöld.
Lestu um leikinn: Portúgal 4 - 1 Ísland
„Mér skilst að margt af ákvörðunum dómarans hafi verið rangar og það er ótrúlega svekkjandi því það skiptir máli í svona leik. Stórar ákvarðanir gera þetta erfiðara fyrir okkur og þetta endar svona."
Staðan var 1 - 1 að loknum venjulegum leiktíma en Portúgalir skoruðu svo þrjú mörk i framlengingu.
„Leikmenn gáfu allt í þetta og skildu allt eftir á vellinum. Þetta var erfitt í lokin og vantaði að momentin féllu með okkur. Þau gerðu það ekki og þetta var niðurstaðan."
Ísland endaði í 2. sæti riðilsins en fékk svo bara einn leik á útivelli í skrítnu umspili sem tapaðist í kvöld.
„Það þarf að halda ráðstefnu um útfærslu á þessu umspili og forvitnast um hvað fólk var að taka þegar það ákvað að þetta yrði svona. En svona var þetta og við vissum að þetta væri 50/50 do or die leikur og þetta var súrt."
Nánar er rætt við Söndru í spilaranum að ofan en hún ætlar að halda áfram í fótbolta þó hún sé á leið í gott frí núna.