Breiðablik skellti sér á topp Pepsideildarinnar í kvöld með góðum sigri á lánlausu liði Víkinga. Breiðablik lenti undir í fyrri hálfleik en áður en að honum lauk hafði liðið komið boltanum tvisvar í net Víkinga. Svo fór að leiknum lyktaði með 2-3 sigri Blika sem eins og áður sagði skella sér á toppinn í það minnsta um tíma.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 3 Breiðablik
„Fyrstu 30 mínúturnar voru mjög erfiðar fyrir okkur, við náðum ekki að halda bolta nógu vel og Víkingar gengu á lagið. Skoruðu þarna flott mark sem að við svöruðum svo mjög fljótlega næstu mínúturnar á eftir settum tvö með mjög stuttu millibili reyndar ein gjöf þarna frá Víkingum .“
Sagði Ágúst Gylfason um leik sinna manna í dag.
Blikar skelltu sér eins og áður sagði í toppsæti deildarinnar með sigrinum í kvöld. Það hlýtur að vera gleðiefni fyrir Ágúst?
„Það er frábært, við viljum vera þarna þetta er geggjað, geggjuð tilfinning en við ætlum að ýta þessu frá okkur það er Mjólkurbikar á fimmtudaginn, undanúrslit á móti Víking Ó og það verður erfiður leikur.“
Alexander Helgi Gylfason hetja Blika gegn KR í síðustu umferð var ekki í leikmannahópi Breiðabliks í dag og lék fréttaritara forvitni á að vita hverju það sætti.
„Hann fékk höfuðhögg á æfingu um daginn og því miður þá gat hann ekki verið með en svona er þetta, svona er fótboltinn. “
Sagði Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks en nánar er rætt við hann í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir