
Spútniklið Pepsideildarinnar, KA, fékk Inkassolið ÍR í heimsókn á KA-völlinn fyrr í kvöld í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. 1-1 var staðan eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja leikinn. Þar reyndust gestirnir betri, vörðust frábærlega og refsuðu með tveimur mörkum. 1-3 tap KA fyrir ÍR því staðreynd.
Lestu um leikinn: KA 1 - 3 ÍR
„Þetta var svekkjandi, það er á hreinu. Við ætluðum okkur áfram. Reynum á þá allan tímann en lendum í basli fljótlega. Í raun eftir fyrsta skot á okkar mark. Þegar maður eltir allan tímann og reynir að jafna og vinna þá verður þetta erfitt. Menn að taka sénsa og gefa eftir pláss til baka sem við erum ekki vanir. En við náum að jafna og fáum tækifæri til að sigra. Það gekk ekki eftir og við erum svekktir,“voru fyrstu viðbrögð Srdjan Tufgdzic, eða Túfa, þjálfara KA eftir leikinn í kvöld.
ÍR hafði ekki farið vel af stað í Inkasso deildinni og tapað þar fyrstu tveimur leikjunum á meðan KA hefur byrjað frábærlega í Pepsi deildinni. Margir bjuggust því við sigri KA í kvöld. Túfa gerði sex breytingar á byrjunarliði sínu í kvöld, bæði vegna meiðsla og til að koma áður meiddum leikmönnum í stand fyrir komandi vikur.
„Ég stilli alltaf upp liði sem ég tel að geti unnið leikinn. Og það var þannig í dag. Verst í öllu er að þurfa að gera skiptingar útaf meiðslum. Þá er mikið af plönum sem ganga ekki upp.“ sagði Túfa sem var vissulega ekki sáttur með að vera dottinn úr bikarnum.
„Við vildum bara koma okkur áfram, við vorum ekkert að vanmeta ÍR. Því miður gekk það ekki í dag,“ sagði Túfa að lokum.
Allt viðtalið má sjá í myndbandinu hér að ofan.
Athugasemdir