„Við settum þennan leik upp eins og aðra, við ætluðum að mæta hér og skemma partý-ið. Það gekk ekki alveg upp" sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, eftir 3-1 tap gegn Breiðablik í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Úrslitin þýða það að Breiðblik er Íslandsmeistari 2018.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Selfoss
Selfoss komst 1-0 yfir og var staðan þannig í hálfleik. Blikar breyttu stöðunni fljótt í seinni hálfleiknum.
Selfoss komst upp í Pepsi-deildina fyrir þetta tímabil og siglir lygnan sjó um miðja deild.
„Þetta er staðurinn sem við viljum spila á, spila meðal þeirra bestu. En við ætlum okkar að vera ofar, það er einn leikur eftir til að ná því markmiði. Við settum okkur markmið fyrir sumarið um ákveðinn stigafjölda og við eigum eftir að ná því. Við gerum það í næsta leik, það er ekkert annað sem kemur til greina."
„Heilt yfir hefur sumarið verið mjög flott, það eru margar ungar stelpur hjá okkur að fá fyrstu mínúturnar í Pepsi-deildinni. Þær eru búnar að vera að stíga upp, þær eru flottar. Við lögðum upp með það fyrir sumarið að gefa þeim reynslu, halda okkur uppi og ná ákveðnum stigafjölda."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir