Breiðablik vann stórsigur á FH á Kópavogsvelli í kvöld, 4-1 sigur og eru jafnir Stjörnunni í 2.-3.sæti deildarinnar eftir 13 umferðir. Ágúst Gylfason þjálfari Breiðabliks var mjög kátur eftir leik og sagði magnað að vinna 4-1 sigur á sterku FH liði.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 1 FH
„Þetta var frábært, við nýtum okkar skyndisóknir vel, þvílík gæði í liðinu og þvílik vinnusemi sem skilar þessum þremur stigum og 4-1 sigur er alveg magnað."
Thomas Mikkelsen er kominn með tvö mörk og eina stoðsendingu í tveimur leikjum hjá Blikunum og Gústi sagði hann koma virkilega vel inn í liðið og sé frábær liðsstyrkur.
„Frábær innkoma hjá honum, búinn að standa sig rosalega vel hjá okkur. Hann kemur með kraft í liðið og allt liðið stígur upp og liðsheildin skilaði þessum sigri í dag."
Breiðablik eru núna 3 stigum frá toppliði Vals og Gústi segir að það sé auðvitað markmiðið að berjast um titilinn.
„Við erum í toppbaráttunni, það er það sem við vildum fyrir mót að vera að berjast á toppnum á þessum tímapunkti í mótinu. Við erum þar og verðum bara að halda áfram."
Elfar Freyr Helgason er búinn að vera meiddur en ætti að vera klár eftir 1-2 vikur segir Gústi sem býst ekki við að bæta við leikmannahóp sinn í glugganum.
„Elfar er byrjaður aðeins að æfa með okkur og verður tilbúinn eftir eina til tvær vikur vonandi. Eins og staðan er núna erum við sáttir við leikmannahópinn eins og hann er en maður veit aldrei hvað gerist."
Athugasemdir