
„Ég er rosalega spennt og ég finn að við höfum enn trú á okkur sjálfum. Það er rosalega mikilvægt að hengja sig ekki á því sem gerðist í síðasta leik," sagði Sandra María Jessen, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Stelpurnar spila á föstudaginn gegn Danmörku í Þjóðadeildinni og nokkrum dögum síðar mæta þær Þýskalandi. Þetta verða tveir gríðarlega erfiðir leikir.
„Ég held að það sé hungur í hópnum og við viljum sýna og sanna að við getum betur en við gerðum í Þýskalandi. Við erum rosalega spenntar fyrir leiknum á föstudaginn og við vonumst til að þjóðin haldi áfram að styðja við bakið á okkur. Við gerum þetta öll saman og vonandi fáum við góð úrslit."
Sandra María spilaði sinn fyrsta keppnisleik með íslenska landsliðinu í sex ár er hún byrjaði gegn Wales í síðasta glugga. Hún hefur gengið í gegnum margt til að komast aftur á þann stað sem hún er á núna, bæði erfið meiðsli og barnsburð.
„Þetta var rosalega gaman og rosalega þýðingarmikið fyrir mig. Þetta var klárlega búið að vera markmið í langan tíma. Að fá strax svona stórt hlutverk og að fá traust frá þjálfaranum er mikilvægt fyrir. mig persónulega. Það er gott veganesti í það sem er framundan."
Hún segir að það sé spennandi verkefni að mæta Danmörku á föstudaginn á Laugardalsvelli.
„Þær eru að gera mjög góða hluti. Þær eru á góðu skriði og unnu Þjóðverja. Þær eru með mikil gæði og það verður alvöru leikur. Þetta er annað tækifæri til að sýna hvað í okkur býr. Þetta er nágrannaþjóð okkar og það er kannski extra mikill rígur á milli landanna. Við förum klárlega inn í leikinn á föstudaginn til að stríða þeim og reyna að ná í úrslit."
Hún hvetur fólk auðvitað til að skella sér á völlinn.
„Það er mikið á bak við að maður er alltaf ræða um stuðninginn upp í stúku. Þetta er algjörlega tólfti maðurinn á vellinum. Það er enn meiri orka og enn meiri vilji þegar maður sér að stúkan er full. Það er mikilvægt þegar það er ekki allt að ganga æðislega vel að fá fólk upp í stúku. Það mun skipta miklu máli inn á vellinum og þá skapast meiri stemning. Þetta verður yfirhöfðu skemmtilegra."
Ísland spilar svo við Þýskaland nokkrum dögum eftir Danmerkurleikinn. Stelpurnar töpuðu stórt í Þýskalandi í síðasta mánuði en eru staðráðnar í að gera betur núna og fagna þær því að fá annan leik gegn þeim svona stuttu eftir þann síðasta.
„Ég held að það sé bara mjög gott til að leiðrétta það sem gerðist í Þýskalandi. Við getum kannski nýtt okkur það að þær haldi að þetta verði auðvelt og svo tökum við á móti þeim í alvöru veðri á Íslandi og gefum þeim alvöru leik," sagði Sandra María.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir