Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði öll þrjú mörk Leiknis sem vann í kvöld lífsnauðsynlegan sigur á Fjölni í 1. deildinni 3-0. Leiknisliðið heldur því enn í vonina um að bjarga sér frá falli
Lestu um leikinn: Leiknir R. 3 - 0 Fjölnir
„Þetta mátti ekki koma mikið seinna, við höfum verið of lengi af stað aftur. Þetta var síðasti séns til að halda okkur lifandi í þessari baráttu. Allir voru að leggja sig 110% fram," sagði Ólafur Hrannar en þetta var fyrsta þrenna hans fyrir Leikni.
Hann fékk þó ekki að eiga boltann eftir leik. „Leiknir á þennan bolta og þeir vilja ekki gefa mér hann. Ég ræði þetta kannski betur við þá," sagði Ólafur léttur.
„Menn ætla ekki að gefast upp fyrr en feita konan syngur. Við erum með of gott lið til að falla."
Ólafur hrósaði Pape Mamadou Faye en Pape lagði upp fyrstu tvö mörkin. Í síðustu viku leit út fyrir að Pape hefði spilað sinn síðasta leik fyrir Leikni. „Hann er búinn að standa sig virkilega vel í þessari vinnuviku og ætlar að sýna það að hann á heima í þessum klúbbi," sagði Ólafur.
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.