„Mér fannst við fínir í þessum leik, eftir sirka 20 mínútur fannst mér við spila ágætis fótbolta og sköpuðum fullt færum en við bara skorum ekki. Það vantaði bara að nýta færin sem við fáum í leiknum," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir tap gegn KR í Bestu deildinni í dag.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 Valur
„Mér fannst spilamennskan ágæt á köflum, það voru fínir kaflar en betur má ef duga skal."
Valur á ekki möguleika á Evrópusæti, það var ljóst eftir tap gegn Víkingil. Hvað er það sem Valur vill fá út úr síðustu leikjunum? „Við viljum bara spila almennilegan fótbolta og vinna leikina. Það er ekkert flóknara en það."
Ólafur tók við þjálfun Vals af Heimi Guðjónssyni á miðju tímabili og var ráðinn út tímabilið. Á dögunum var greint frá því að Ólafi hefði verið tilkynnt að hann yrði ekki áfram þjálfari liðsins á næsta tímabili. Undirritaður spurði Ólaf hvort hann hefði á þeim tímapunkti að stíga til hliðar sem þjálfari.
„Ég tilkynnti það að ég yrði ekki áfram," sagði Óli. En hverjum tilkynnti hann það? „Það er bara mitt mál."
Það vakti athygli að Birkir Már Sævarsson byrjaði á bekknum í dag. Hver var hugsunin á bakvið það? „Ég er með ágætis hóp og Heiðar [Ægisson] er búinn að standa sig vel á æfingum og í síðasta leik, þannig ég leyfði honum að spila. Birkir kom bara vel inn."
„Ég vil fá frammistöðu í síðustu leikjunum, við erum búnir að sýna ágætis frammistöðu í þessum tveimur leikjum sem eru búnir í þessari úrslitakeppni án þess að fá nokkuð út úr þeim. Vonandi getum við snúið því við," sagði Óli að lokum.
Athugasemdir