
Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson var ánægður með gott dagsverk hjá landsliðinu sem er nú einum leik frá því að komast á Evrópumótið eftir 4-1 sigurinn á Ísrael í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísrael 1 - 4 Ísland
Seltirningurinn steig ekki feilspor í leiknum og var frammistaða hans í heild sinni mjög góð. Hann var nálægt því að verja fyrri vítaspyrnu Ísraela og varði þá gott skot í síðari hálfleiknum, ásamt því að setja pressu á Eren Zahavi í seinna vítinu.
„Mjög vel. Planið var að vinna þennan leik og það gekk. Núna er fókus kominn á næsta leik.“
„Mér leið mjög vel hvernig leikurinn byrjaði. Þeir voru ekki að skapa sér neitt og ekki við heldur reyndar en við getum alveg gert betur en ánægður að við vorum ekki að gefa mikið af færum á okkur og síðan skoruðum við okkar mörk,“ sagði Hákon við Fótbolta.net.
Hákon er nú aðalmarkvörður landsliðsins og er hann ánægður að fá traustið.
„Það er góð tilfinning að fá traustið. Mér líður mjög vel með það, halda því og standa sig.“ sagði Hákon, sem segir að liðið hafi ekki fagnað óhóflega mikið eftir leikinn, enda er enn einn leikur í að liðið komist á EM. „Við fögnum öllum sigrum en það verður ekkert fagnað mikið. Það er leikur á þriðjudag.“
Markvörðurinn hafði gert heimavinnu sína fyrir vítaspyrnurnar en hann hafði skoðað Zahavi vel og vandlega. Hann vissi að hann myndi skjóta í vinstra hornið en bjóst við að hann myndi skipta í seinna vítinu.
„Ég var búinn að skoða þennan leikmann mjög mikið og vissi að þetta væri hornið hans, sem hann skoraði og klúðraði. Út frá því sem við vorum búnir að skoða er að hann myndi skipta í seinna, en það erfitt að lesa það og sérstaklega hjá þessum leikmanni sem hefur tekið sextíu víti. Reynslumikill leikmaður en ég var búinn að horfa það mikið á hann að ég vissi að hann myndi skjóta þangað en gott víti, stöngin inn. Seinna er verið að setja pressuna á leikmanninn, því hann verður að skora, þannig öll pressan var á honum. Það hefði verið erfitt að vera í 2-2 og tíu mínútur eftir, það hefði verið allt annar leikur.“
„Bara halda þessu í 2-1. Þeir áttu einhver þrjú skot á fyrstu fimmtán og við þurfum að gera miklu betur þar á móti Úkraínu. Gettum ekki droppað svona langt niður og verið svona passífir og þurfum að þora stíga upp með mennina, við verðum að skoða það.“
Albert Guðmundsson, samherji Hákonar, skoraði þrennu og átti þátt í öðru marki í stórsigrinum.
„Geggjaður leikmaður. Það vita það allir og bara verið sturlaður á Ítalíu,“ sagði Hákon, sem var síðan spurður hvort hann hefði varið aukaspyrnu hans og var hann kokhraustur í svari sínu: „Já, örugglega,“ sagði hann í lokin,.
Athugasemdir