Þróttur tapaði 1-0 gegn Þór/KA í Bestu deild kvenna á Akureyri í kvöld. Fótbolti.net ræddi við Nik Chamberlain stjóra Þróttar eftir leikinn í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór/KA 1 - 0 Þróttur R.
„Þór/KA á hrós skilið, þær sýndu ákefð og voru sterkar. Ég sagði fyrir leik að það myndi gera gæfumuninn ef við gætum sýnt jafn mikla ákefð og þær. Þær voru bara betri en við í dag," sagði Nik.
Þróttur náði lítið að skapa sér í kvöld.
„Það gekk bara ekkert upp fram á við. Við díluðum vel við flesta af löngu boltunum frá þeim. Við gerðum ein mistök sem varð til þess að þær skoruðu,"
Þróttur tapaði mikilvægum stigum í baráttu um Evrópusæti en Nik svekkir sig ekki mikið á því.
„Við viljum ná í 30 stig, það er markmiðið okkar til að ná betri árangri en í fyrra og það er enn möguleiki og ef það þýðir að við lendum í 2. sæti þá gerum við það bara," sagði Nik.