Stjarnan tók á móti Þrótti í Garðabænum í kvöld í síðustu umferð Bestu deildarinnar. Stjörnukonur áttu ennþá möguleika á að ná Evrópusæti fyrir leikinn en þurftu að treysta á að Valskonur myndu vinna Blika. Niðurstaðan var 0-1 tap Stjörnunnar gegn Þrótti sem skipti í raun engu máli þar sem Blikar kláruðu sinn leik á Hlíðarenda.
Lestu um leikinn: Stjarnan 0 - 1 Þróttur R.
„Þetta er náttúrulega jafnteflisleikur, það er alveg hreint borðliggjandi jafntefli en endar svona, mjög leiðinlegt“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leikinn. Það stefndi allt í sanngjarnt jafntefli áður en fyrirgjöf Mikenna McManus rataði í net Stjörnunnar og Þróttarar tóku því stigin þrjú.
„Þetta er lélegt mark sem við fáum á okkur og á ekki að gerast. Sennilega bara sáum við fram á að leikurinn væri búin og við þurftum að vinna til að eiga einhvern möguleika á Evrópusæti þannig að það gæti vel verið að það hafi eitthvað slökknað á því. Sanngjarnt jafntefli en það var ekki og stundum er þetta svona“ hélt hann svo áfram.
Stefnan hjá Stjörnunni í sumar var að berjast um titilinn en slök byrjun á mótinu varð til þess að þær voru strax byrjaðar að elta. Um mitt mót fór þetta þó að tikka og töpuðu þær varla leik það sem eftir lifði móts. Aðspurður hvort að það sé svekkjandi að enda í 4. sæti segir hann:
„Það skiptir engu máli hvort við endum í þriðja, fjórða eða öðru við náttúrulega viljum vera númer eitt. Með spár og annað ég veit ekki hvað ég á að segja við því. Já, að sjálfsögðu, við litum vel út og erum gott lið og ekki skrýtið að okkur sé spáð titlinum en við sóttum okkur ekki 4-5 landsliðsmenn í júlí, það var bara þannig.“