Andri Rúnar Bjarnason var hetja Grindavíkur þegar hann tryggði liðinu 2-1 sigur gegn Víkingi með dramatísku sigurmarki í annarri umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld.
Andri Rúnar skoraði sigurmark Grindvíkinga með skalla í uppbótartíma og segist hann ekki einu sinni hafa áttað sig strax á því að boltinn fór í netið.
Andri Rúnar skoraði sigurmark Grindvíkinga með skalla í uppbótartíma og segist hann ekki einu sinni hafa áttað sig strax á því að boltinn fór í netið.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 2 Grindavík
„Þetta var bara geðveikt. Boltinn berst út á Gunna (Gunnar Þorsteinsson) á kantinum og hann nær góðri sendingu fyrir. Ég veit að Rolo (Róbert Örn Óskarsson) er að koma og ég næ að flikka honum. Ég sá boltann ekki fara inn, ég heyrði bara fagnaðarlætin í strákunum. Að skora sigurmark á 93. eða 94. mínútu er alltaf geðveikt," sagði Andri Rúnar við Fótbolta.net að leik loknum. Hann lék áður með Víkingi en það kom aldrei til greina að sleppa því að fagna markinu gegn gömlu félögunum.
„Ef maður skorar sigurmark á 93. mínútu verður maður að fagna, það er bara þannig."
Grindavík var klárlega slakari aðilinn í fyrri hálfleik en allt annað var að sjá til liðsins í þeim síðari.
„Við vorum alls ekki að spila okkar bolta, ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Við ákveðum bara í hálfleik að koma vitlausir út, við fórum að berjast fyrir hvorn annan og þá kom okkar spil í kjölfarið," segir Andri, sem var bjartsýnn eftir jöfnunarmarkið á að Grindavík gæti tekið öll þrjú stigin.
„Mér leið mjög vel eftir jöfnunarmarkið, ég hafði mjög góða tilfinningu fyrir því að við myndum skora."
Grindavík er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðir Pepsi-deildarinnar og er óhætt að segja að nýliðarnir hefji leik með stæl.
Athugasemdir