
Ragnar Sigurðsson varnarmaður íslenska landsliðsins var kátur eftir 1-0 sigur á Króötum í kvöld. Ragnar var frábær í leiknum og áttu sóknarmenn Króata engin svör við frábærum varnarleik Íslands.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 0 Króatía
„Við vorum mjög solid. Þeir fengu eitt færi þegar ég rann á rassgatið þarna á 1. mínútu, ég veit ekki alveg hvað gerðist en þá spiluðu þeir í svæði sem ég skildi eftir mig. Þetta eru bara mómentin sem liðsfélagar þínir þurfa að bjarga þér og þeir gerðu það."
„Þeir áttu nokkrar sóknir, það komu engin færi en það komu nokkur langskot. Við vorum bara solid og notuðum okkar sénsa og skoruðum loksins. Við fengum fullt af horn og aukaspyrnum svo þetta hlaut bara að detta."
Ragnar segir að sigurinn hafi verið sanngjarn.
„Jájá, ég myndi alveg segja það. Þeir eru með ógeðslega góða gaura og það er enginn sem kemst nálægt Modric þegar hann er með boltann og Kovacic sólaði upp allann völlinn þarna einu sinni. Við vorum með betri liðsheild í dag og það er það sem skiptir máli í svona fótboltaleik."
Ragnar setti mynd á samfélagsmiðla beint eftir leik þar sem hann skrifaði undir „Formið var víst í lagi". Þar er hann væntanlega að vísa í umfjöllun sem myndaðist fyrir leikinn hvort ákveðnir leikmenn liðsins væru í nægilega góðu formi.
„Já mér fannst ég þurfa að gera það. Það þýðir ekkert að stressa sig alltof mikið, við erum allir atvinnumenn og þó svo við séum ekki að spila þá erum við alltaf í formi."
Athugasemdir