Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 10. nóvember 2022 07:00
Elvar Geir Magnússon
10 dagar í HM - HM á Spáni 1982
Gulldrengurinn óstöðvandi
Leikmenn Ítalíu með bikarinn.
Leikmenn Ítalíu með bikarinn.
Mynd: Getty Images
Paolo Rossi í úrslitaleiknum.
Paolo Rossi í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty Images
Gaetano Scirea fagnar með stuðningsmanni.
Gaetano Scirea fagnar með stuðningsmanni.
Mynd: Getty Images
Í tilefni þess að HM í Katar hefst 20. nóvember, 21. Heimsmeistaramótið í fótbolta, rifjar Fótbolti.net upp liðin mót. Leikmennirnir, sigurvegararnir, heimalandið, eftirminnilegir atburðir og fleira í brennidepli.

Fótbolti.net mun að sjálfsögðu fjalla ítarlega um HM í Katar en opnunarleikurinn verður 20. júní milli Katar og Ekvador.



HM á Spáni 1982
Heimsmeistarakeppnin á Spáni var með nýju fyrirkomulagi. Búið var að fjölga í 24 þátttökuþjóðir og átti Afríka í fyrsta sinn fleiri en einn fulltrúa. Leikið var í sex riðlum þar sem tvær efstu þjóðirnar komust í milliriðla sem voru fjórir talsins. Sigurvegararnir í milliriðlunum komust í undanúrslitin. Eins og oft áður voru Brasilíumenn taldir sigurstranglegastir fyrir mótið en fáir veðjuðu á Ítalíu.

Norður-Írar búningalausir
Ríkjandi heimsmeistarar Argentínu voru í vandræðum. Þeir töpuðu fyrsta leik sínum fyrir Belgíu en komust naumlega í milliriðil. Þar tapaði liðið fyrir Ítalíu og Brasilíu en í síðarnefnda leiknum fékk Diego Maradona rautt spjald fyrir að sparka í mótherja en Argentínumenn áttu í erfiðleikum með að höndla mótlætið.

Norður-Írar bjuggust ekki við að komast upp úr riðli sínum og þurftu að láta senda eftir nýju búningasetti frá Dublin fyrir milliriðilinn þar sem leikmenn höfðu skipt á treyjum við andstæðinga sína í riðlinum. Norman Whiteside setti met þegar hann spilaði með N-Írum gegn Júgóslövum aðeins 17 ára og 34 daga gamall.

Fleiri met voru sett á mótinu. Ungverjar settu markamet með því að vinna El Salvador 10-1. Varamaðurinn Laszlo Kiss skoraði þrennu á sjö mínútum sem einnig var met. Þá setti Bryan Robson með þegar hann skoraði eftir aðeins 27 sekúndna leik þegar England vann 3-1 sigur gegn Frakklandi

Fyrsta vítaspyrnukeppnin
Ítalir voru heppnir að komast upp úr riðli sínum. Þeir gerðu jafntefli í öllum þremur leikjum sínum og voru stálheppnir að tapa ekki fyrir Kamerún. Þeir komust áfram á betri markatölu en Kamerún. Ítalía vann svo 2-1 sigur gegn Argentínu í milliriðli og 3-2 sigur á Brasilíu þar sem Paolo Rossi skoraði þrennu. Jafntefli hefði dugað Brasilíumönnum sem sóttu samt til sigurs í stöðunni 2-2 og fengu það í bakið.

Ítalía komst í undanúrslitin og lék gegn Póllandi. Aftur var Rossi óstöðvandi og skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Nývangi í Barcelona.

Vestur-Þýskaland lék gegn Englandi í milliriðli. Englendingar voru betri í leiknum en Þjóðverjum dugði jafntefli og lágu í vörn. Niðurstaðan 0-0. Í undanúrslitum lék V-Þýskaland gegn Frakklandi í mjög sögulegum leik þar sem staðan var 3-3 eftir framlengingu.

Þá var farið í fyrstu vítaspyrnukeppni í sögu HM. Staðan var 4-4 eftir að bæði lið höfðu tekið fimm spyrnur og því réðust úrslit í bráðabana þar sem Tony Schumacher varði vítaspyrnu Maxime Bossis og Horst Hrubesch skaut Þjóðverjum í úrslitin.

Úrslitaleikur: Ítalía 3 - 1 V-Þýskaland
1-0 Paolo Rossi ('57)
2-0 Marco Tardelli ('69)
3-0 Alessandro Altobelli ('81)
3-1 Paul Breitner ('83)

Úrslitaleikurinn einkenndist af mikilli baráttu. V-Þjóðverjar voru meira með knöttinn en ítalska liðið nýtti sín færi og vann 3-1 sigur. Sandro Pertini, forseti Ítalíu var hæstánægður með sína menn. Hann fagnaði gríðarlega og tók liðið með sér til Ítalíu í einkaþotu sinni. 30 þúsund manns tóku á móti liðinu á flugvellinum í Róm.

Markahrókurinn: Paolo Rossi
Gulldrengur Ítalíu var maður keppninnar. Þessi snjalli sóknarmaður var 25 ára og var nýkominn úr tveggja ári banni vegna hagræðingar úrslita. Rossi tók ekki þátt í hagræðingunni en vissi af henni og var dæmdur fyrir að leyna upplýsingum. Rossi tók gullskóinn og gullknöttinn sem besti maður mótsins. Rossi sló fyrst í gegn hjá Vicenza og lék síðan með Juventus og AC Milan. Í dag starfar hann sem íþróttafréttamaður.

Leikmaðurinn: Dino Zoff
Markvörður og fyrirliði Ítalíu verður að fá smá kafla. Hann var annar markvörðurinn til að lyfta HM-styttunni og varð elsti leikmaðurinn til að verða Heimsmeistari (met sem stendur enn), hann var 40 ára þegar mótið fór fram á Spáni. Hann var þá markvörður Juventus en lagði hanskana á hilluna 1983 og fór út í þjálfun.

Leikvangurinn: Santiago Bernabéu
Heimavöllur Real Madrid var vettvangur úrslitaleiksins 1982. Það þarf vart að kynna þennan leikvang sem er einn sá frægasti í heimi. Um er að ræða þriðja stærsta leikvang Evrópu á eftir Nou Camp og Wembley. Leikvangurinn var opnaður 1947 en hefur oft verið stækkaður og endurbættur eftir það.

Sjá einnig:
HM í Úrúgvæ 1930
HM á Ítalíu 1934
HM í Frakklandi 1938
HM í Brasilíu 1950
HM í Sviss 1954
HM í Svíþjóð 1958
HM í Síle 1962
HM á Englandi 1966
HM í Mexíkó 1970
HM í Vestur-Þýskalandi 1974
HM í Argentínu 1978

Markaregn frá HM 1982:


Heimild: Bókin 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson og ýmsar vefsíður
Athugasemdir
banner
banner
banner