Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR, er búinn að leggja skóna á hilluna. Þetta staðfesti hann í viðtali eftir 2-2 jafntefli gegn Víkingi R. í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 2 KR
„Ég er ógeðslega svekktur að hafa ekki skorað í leiknum. Ég held að þetta sé síðasti leikurinn á ferlinum mínum, ég er held ég kominn í bann fyrir mitt eina brot í leiknum. Það er ógeðslega svekkjandi," sagði Pálmi Rafn að leikslokum og ræddi svo við dómarann um gula spjaldið.
„Ég er ógeðslega svekktur, ég held allavega að ég sé kominn í bann. Ég skil hann alveg en að sama skapi var þetta mitt fyrsta brot."
Pálmi Rafn var búinn að ákveða það fyrir sumarið að þetta yrði líklega hans síðasta tímabil. Nú er kominn tími á að setja fjölskylduna í fyrsta sæti.
„Það hefur verið æðislegt að vera fyrirliði KR. Ég er mögulega smá hlutdrægur en þetta er stærsti klúbbur á landinu og það er mikill heiður að vera fyrirliði KR."