Breiðablik og Þór/KA gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik 13. umferðar Pepsi-Max deildar kvenna. Þetta kemur sér virkilega illa fyrir Breiðablik sem er aðeins með eins stigs forystu á Val, sem á leik til góða í titilbaráttunni. Steini, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur í leikslok.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 0 Þór/KA
"Já það eru vonbrigði að hafa ekki skorað í dag, við fengum alveg færin til þess og vorum miklu betri aðilinn í leiknum í dag. Við áttum að sjálfsögðu að skora mark en fótbolti getur stundum verið miskunnarlaus."
"Við spiluðum ágætlega úti á velli og vorum að koma okkur í góðar stöður. Við fáum örugglega einhver 5-6 dauðafæri sem við náðum ekki að nýta. Auðvitað viljum við skora úr svona færum en fótboltinn er stundum svona, hann er ekkert alltaf sanngjarn. En ég var sáttur við margt í leiknum og nú þurfum við bara að halda áfram."
Breiðablik heldur nú til Bosníu þar sem þær taka þátt í undankeppni fyrir 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar.
"Þetta leggst mjög vel í okkur. Þetta verður hundleiðinlegt ferðalag en verkefnið er skemmtilegt og krefjandi. Við vonum bara að það verði ekki of heitt þar og þá erum við ánægð. Við ætlum áfram þar og við eigum alveg góðan séns á því og það er bara okkar markmið að komast upp úr þessum riðli."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir