Nökkvi Þeyr Þórisson, leikmaður KA og markahæsti leikmaður Bestu-deildar karla, var ofboðslega svekktur eftir leik liðsins gegn Víkingi R. í toppslag dagsins. Nökkvi kom KA yfir um miðjan síðari hálfleikinn, en gestirnir sneru taflinu við og fara burt með stigin þrjú.
„Maður er hálf orðlaus. Maður er svo svekktur,'' sagði Nökkvi. „Það er mjög erfitt að lýsa því, en ég er bara ógeðslega svekktur.''
Lestu um leikinn: KA 2 - 3 Víkingur R.
„Þegar við komumst yfir að þá fannst mér þetta í raun stefna í að við myndum halda þetta út, eða jafnvel setja eitt í viðbót en við fáum skítamark á okkur úr horni þar sem að menn eru sofandi og eru ekki fyrstir á boltann. Það eru svona lítil atriði sem að kosta, en við verðum bara að sleikja sárin og vera mættir grimmir til leiks í næsta leik.''
Sigurmarkið lá í loftinu og Nökkvi var viss um að það myndi detta KA megin. Nökkvi átti til að mynda skot í stöngina á 80. mínútu eftir frábæran undirbúning Sveins Margeirs Haukssonar.
„Í stöðunni 2-2, þá var ég viss um að við myndum fá eitt færi til að klára þetta. Svo fá þeir eitthvað... Hann fer í varnarmann og lekur þarna inn í gegnum pakkann og þetta er í raun bara alveg eins og markið sem við fáum á okkur í seinasta leik á móti þeim. Ógeðslega svekkjandi og stöngin inn fyrir þá og stöngin út fyrir okkur.''
Ekki gefst þó mikill tími til að gráta orðinn hlut, þar sem að næsta verkefni KA er á fimmtudaginn þegar að liðið fer í Kaplakrika og spilar gegn FH í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.
„Við megum vera svekktir í kvöld, en svo er það bara að skrúfa hausinn aftur á og fókuseraðir á virkilega stóran leik á fimmtudaginn á móti FH í bikarnum. Svekktir í kvöld, sleikjum sárin en verðum klárir á móti FH.''
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.