
Lars Lagerback bíður spenntur eftir að sjá íslenska landsliðið á HM í sumar. Lars var þjálfari Íslands frá 2012 til 2016 og hann er spenntur að sjá sína gömlu lærisveina á stóra sviðinu i Rússlandi.
„Ég mun ekki missa af neinum leik. Ég lofa því. Nema eitthvað alvarlegt komi upp á," sagði Lars við Fótbolta.net í dag.
„Ég mun ekki missa af neinum leik. Ég lofa því. Nema eitthvað alvarlegt komi upp á," sagði Lars við Fótbolta.net í dag.
Ísland er í D-riðli með Argentínu, Króatiu og Nígeríu en um er að ræða einn sterkasta riðil mótsins.
„Þetta er erfiður riðill. Ísland á klárlega séns en það er erfitt að segja til um það hversu mikill sá séns er. Þetta eru þrír leikir og þetta ræðst á smáatriðum. Ég tel að Ísland eigi samt góða möguleika," sagði Lars.
„Þegar ég sá dráttinn þá sagði ég strax að þetta væri ekki besti riðillinn til að lenda í. Þú ert á HM og nánast öll lið þar eru góð. Kannski er gott fyrir Ísland á ákveðinn hátt að mæta bestu liðunum þar sem þá er ekki búist við að liðið hafi mikla möguleika. Ísland sýndi á EM í Frakklandi og í undankeppninni að það getur staðið sig vel."
Lars er mættur til Íslands til að stýra Norðmönnum í vináttuleik gegn Íslandi annað kvöld.
„Ég er búinn að hitta nokkra vini mína og það er mjög gott að koma aftur hingað. Ég á svo margar góðar minningar héðan. Ég hafði vonast til að komast aftur hingað á leiki með liðinu en það er gott að koma núna," sagði Lars sem hefur fylgst vel með íslenska landsliðinu síðan hann hætti eftir EM í Frakklandi.
„Ég hef horft á alla mótsleiki Íslands. Ef ég hef ekki horft á þá í beinni þá hef ég horft á þá á myndbandi eftir á. Ég er mjög ánægður fyrir þeirra hönd. Ég er mjög hrifinn af því sem Heimir og leikmennirnir hafa gert. Það er frábært að sjá liðið komast á HM."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir