„Ég hlakka til. Það er mikil spenna í loftinu. Það eru nokkur ár síðan ég fór í bikarúrslitaleik og það er gaman að komast þangað aftur," segir Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.
Framundan á morgun er bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks, tveggja bestu liða landsins.
Framundan á morgun er bikarúrslitaleikur Vals og Breiðabliks, tveggja bestu liða landsins.
Nik fór einu sinni í bikarúrslitaleik þegar hann var þjálfari Þróttar en þá töpuðu Þróttarar stórt gegn einmitt Breiðabliki.
„Þetta fór ekki eins og ég vildi síðast, en vonandi verður það öðruvísi núna. Stelpunum hlakkar til og spennan er að magnast."
Breiðablik bætti við sig nýjum leikmanni fyrir þennan leik en Samantha Smith er komin á láni frá FHL. Samantha skoraði 15 mörk í Lengjudeildinni í sumar.
„Ég fylgist vel með leikmönnum og vissi aðeins um hennar feril áður en hún kom til Íslands. Við vorum ekki að leita að sóknarmanni fyrir tímabilið. Kristín Dís kom fyrir stuttu og við skoðuðum möguleikana. Mér fannst við þurfa öðruvísi ógn. Hún kemur með reynslu þrátt fyrir að vera bara 24 ára; hún spilaði á háu stigi í háskóla í Bandaríkjunum. Ég er líka góður vinur Kalla (þjálfara FHL), við töluðum um þetta og hann var tilbúinn að leyfa henni að fara eftir að þær komust upp úr Lengjudeildinni."
„Hún hefur verið frábær fram á við, bæði skorað og lagt upp með FHL. Hún gefur okkur fjölbreytni í sóknarleiknum," segir Nik en Anna Nurmi yfirgaf Breiðablik og fór í FH. Hún mátti það eftir að Kristín Dís Árnadóttir kom til félagsins. Það bjó til pláss fyrir Samönthu.
„Eftir leikinn á laugardaginn (gegn Þór/KA) tókum við ákvarðanir. Ég er ánægður að þetta gekk allt upp," segir Nik.
Hann vonast til að Breiðablik sýni betri frammistöðu á föstudaginn en í síðasta leik gegn Val. „Ég veit að við munum spila betur og vonandi verður það því betri leikur líka fyrir áhorfendurna."
Hægt er að horfa á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir