
„Það er svolítið sérstakt að koma aftur inn í klefann. Maður man eftir þeim leik og það er svolítið skrýtið að koma hingað aftur," sagði Birkir Bjarnason þegar Fótbolti.net ræddi við hann á Maksimir leikvanginum í Króatíu í dag.
Birkir var í liði Íslands sem tapaði 2-0 gegn Króatíu í umspili um sæti á HM fyrir þremur árum síðan.
„Við lærðum gríðarlega mikið eftir þennan leik. Það fer inn á marga að tapa svona stórum leik. Við höfum sýnt eftir þennan leik að við erum orðnir miklu betra lið."
Birkir spilaði á miðjunni í 2-0 sigrinum á Tyrkjum í síðasta mánuði í fjarveru Arons Einars Gunnarssonar. Birkir hefur vanalega leikið á kantinum með landsliðinu en hann er einn af þeim sem koma til greina í fremstu víglínu á morgun í fjarveru þeirra þriggja framherja sem eru meiddir.
„Mér leið mjög vel á miðjunni. Mér finnst það skemmtilegasta staðan," sagði Birkir.
„Ég spila þar sem að Heimir (Hallgrímsson) telur að sé best fyrir liðið. Hann hefur reynsu og veit hvað hann er að gera. Hann á eftir að stilla þessu vel upp og við förum eftir því. Það skiptir voða litlu máli hvar ég spila. Mér líður vel í mörgum stöðum."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir