Landsliðsmaðurinn Arnór Sigurðsson ræddi við Fótbolta.net í dag og fór yfir komandi leik gegn Slóvakíu í undankeppni EM.
„Leikurinn leggst mjög vel í mig, maður skynjar að það eru allir gíraðir og klárir í þennan mikilvæga leik. Maður finnur að það er alltaf gaman að koma saman með strákunum," sagði Arnór.
Arnór sagðist hafa rætt við landsliðsþjálfarann Åge Hareide um hlutverk í liðinu ef til kæmi að hann myndi spila. „Við höfum farið yfir það og mér líst vel á það sem hann er að koma með inn í hópinn og liðið."
Arnór „fékk aðeins í nárann" í síðasta leik sínum með Norrköping í Svíþjóð. „Sjúkraliðið hér og ég sjálfur höfum verið að vinna mikið í þessu, þannig það lítur vel út."
Hvernig leggst í þig að spila á Laugardalsvelli á þjóðhátíðardaginn fyrir framan vonandi fulla stúku?
„Það gerist ekki betra en það, maður finnur fyrir stemningunni sem er að aukast og stemningunni í þjóðfélaginu. Það skiptir okkur líka máli að finna fyrir því. Það verður bara geggjað að spila fyrir vonandi fullan Laugardalsvöll á þjóðhátíðardaginn."
„Åge leggst mjög vel í mig, maður finnur það alveg að hann er með þvílíka reynslu og þekkingu á því sem hann er að gera og veit hvað til þarf til að ná árangri. Ég er mjög spenntur að vinna með honum."
Í lok viðtals var svo Arnór spurður út í frítímann sem leikmenn fá milli æfinga og funda. „Það eru frítímar inn á milli, en auðvitað erum við fyrst og fremst að hugsa um að líkaminn sé klár í næstu æfingu og næsta dag. Það er meðhöndlun, ísbað og spa alls konar. Síðan mega menn líka aðeins skreppa. Já, ætli maður nái ekki að renna af og til upp á Skaga," sagði Arnór og brosti.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst. Þar fer hann yfir tímann hjá Norrköping og næsta skref á sínum ferli.
Athugasemdir