Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, var skiljanlega svekktur eftir 6-3 tap hjá sínu liði gegn ÍA í sjöundu umferð Lengjudeildar karla í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 6 - 3 Þróttur R.
Þróttur var komið 3-1 yfir á 50. mínútu leiksins og fátt benti til þess að Þróttur myndi fá á sig fimm mörk síðar í leiknum.
„Varnarleikurinn var skelfilegur í seinni hálfleik, ég er bara svekktur með seinni hálfleikinn. Leikplanið gekk alveg upp í fyrri hálfleiknum og við vorum að gera það sem við vorum að leggja upp með.“
Þó seinni hálfleikurinn hafi ekki farið eins og Ian vildi þá var hann ánægður með frammistöðuna í fyrri hálfleik.
„Við vorum alltaf hættulegir. Skorum þarna tvö mörk og áttum tækifæri til að búa til fleiri mörk. Ég er bara virkilega ánægður með fyrri hálfleikinn. Seinni hálfleikurinn var bara algjört disaster hjá okkur.“
Þróttur kemur til með að spila gegn Gróttu í næstu viku og Ian ætlar sér ekki að dvelja of lengi við þetta tap.
„Við getum ekki svekkt okkur of mikið með þetta. Við þurfum bara að setja kassann út og æfa vel og undirbúa okkur fyrir Gróttu leikinn.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.