„Fyrst þá er ég ánægður með lokakaflann í þessu móti hjá okkur. Við vinnum tvo leiki í röð og endum mótið þannig. Það var það eina sem ég gat beðið um leikmenn og liðið að enda þetta af krafti þannig að ég er gríðarlega ánægður með það.“ Sagði Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA sem kvaddi Bestu deildina í dag með 2-1 sigri gegn FH í Kaplakrika.
Lestu um leikinn: FH 1 - 2 ÍA
ÍA leikur að ári í Lengjudeildinni en Jón Þór talaði um á dögunum að félagði þyrfti að læra af reynslunni en liðið hefur tekið nokkuð reglubundnar sveiflur á milli deilda síðastliðin ár. Margir uppaldir Skagamenn eru nú orðaðir við heimkomu en er það partur af upprisu ÍA?
„Fyrsta skrefið er að efla umgjörðina og liðsheildina og þétta raðirnar. Það er fyrst og fremst það sem við þurfum að gera. Það er svo ekkert leyndarmál að við viljum byggja liðið upp á heimamönnum. Það er ákveðinn grunnur og það er það sem maður er alinn upp við og ef við getum náð í leikmenn til baka þá auðvitað skoðum við það mjög alvarlega. En það er mikil vinna framundan og nú er bara að bretta upp ermar og hefjast handa.“
Um það hvort tímabilið hafi verið lærdómsríkt fyrir hann sagði Jón Þór.
„Já heldur betur. Það hefur gengið á ýmsu og þetta er búið að vera langt tímabil. Það er auðvitað oft þannig eða oftast að þegar að lið fellur að við höfum ekki náð varnarleiknum eins stöðugum og við hefðum viljað. Mikið af lykilmönnum verið frá og lengi frá nánst allt mótið.“
Sagði Jón Þór en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir