Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA var allt annað en sáttur eftir 2-1 tap síns liðs gegn Keflavík á heimavelli í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 1 - 2 Keflavík
„Maður getur lítið annað gert en að óska Keflvíkingum til hamingju með þennan sigur, þær gerðu þetta mjög vel. Ég verð að taka á mig að ég undirbjó liðið mjög illa fyrir leikinn, allt of mikið af mistökum sem ég geri í aðdraganda og í þessum leik," sagði Jóhann.
Eftir stórkostlegan sigur á Stjörnunni í fyrstu umferð sendu Keflvíkingar þær beinustu leið á jörðina.
„Við eigum algjöran hauskúpu leik, bæði ég og liðið. Það verður til þess að við náum ekki völdum á þessu og sköpum okkur lítið sem ekki neitt. Við erum sjálfum okkur verst, sýndum hvað við getum verið hrikalega slakar eins og við sýndum hvað við getum verið góðar á móti Stjörnunni um daginn," sagði Jóhann.
„Það eina sem hægt er að gera er að hækka þá slá sem var í Garðabænum og verða betri en fjarlægast þessa frammistöðu í dag því hún er eiginlega ekki boðleg."