Það má til sanns vegar færa að Keflavík hafi fengið vænan skell þegar liðið mætti Breiðablik í Bestu deild kvenna er liðin mættust í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 6-0 Kópavogskonum í vil og má segja að Keflavík hafi lítið séð til sólar í leiknum. Það var að vonum svekktur fyrirliði Keflavíkur Kristrún Ýr Holm sem var til viðtals við fréttaritara að leik loknum.
Lestu um leikinn: Keflavík 0 - 6 Breiðablik
„Þetta er hrikalega sorglegt og ég er eiginlega orðlaus. Þetta var hrikalega lélegt og vonandi lán í óláni að við vorum dregnar aðeins niður á jörðina. Verið ágætis byrjun fyrstu tveir leikirnir en svo fengum smá rassskellingu í dag. Auðvitað ekki gott að fá á sig sex mörk en svo fór sem fór.“ Sagði hún um sín fyrstu viðbrögð eftir leikinn.
Aðeins voru 50 sekúndur liðnar leiks þegar Breiðablik skoraði fyrsta mark leiksins og höfðu eftir 30 mínútna leik bætt tveimur mörkum við auk þess sem Keflavík missti Júlíu Ruth Thasaphong af velli með rautt spjald á 27.mínútu leiksins of flest það sem úrskeiðis gat farið þegar búið að því fyrir Keflavík.
„Við vorum bara greinilega ekki mættar til leiks. Ekki með hausinn rétt stiltann sem er sorglegt og við eigum að vera tilbúnar til leiks. Burtséð frá þessu rauða spjaldi þá vorum við alltaf skrefinu eftirá og Blikar voru bara með algjöra yfirburði í dag og við áttum að gera betur.“
Keflavíkurliðið er þó með fjögur stig eftir þrjár umferðir sem ekki var sjálfgefið að ná í á tveimur erfiðum útivöllum. Er Kristrún sátt með þá uppskeru?
„Vissulega, jú við töpuðum þessum leik og töpuðum honum vel. En við erum með þessi fjögur stig og þurfum núna bara að halda haus og horfa fram á við. Þetta er ekki búið og við lærum bara af þessu. “
Sagði Kristrún en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir