„Þetta var rosalegur leikur en hrikalega gott að klára þrjú stig og vinna leikinn," sagði Viðar Ari Jónsson leikmaður FH eftir 2 - 3 sigurinn á Val í Bestu-deild karla í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 3 - 2 Valur
Valur leiddi 1 - 2 í hálfleik en FH setti svo Gyrði Hrafn Guðbrandsson inná og hann skoraði tvö mörk og tryggði FH sigur.
„Thank you Gyrðir! Geggjaður," sagði Viðar Ari. „Þetta var geggjuð innkoma hjá honum, hann sprengdi þetta upp og skoraði tvö mörk. Heilt yfir fannst mér við líka vera með Valsarana í seinni hálfleik," bætti hann við.
„Ég get ekki útskýrt það en við settum í gír og mér fannst við hafa fulla stjórn. Það var geggjað hjá Gydda að setja tvö og þetta vannst bara í seinni hálfleik."
Viðar Ari hefur átt í viðræðum við félög erlendis um að skipta og getur farið frítt frá FH. Glugginn í Skandinavíu lokar um mánaðarmótin, félög eins og Ham-Kam, Sandefjord og Halmstad hafa verið orðuð við Viðar. Var þetta hans síðasti leikur fyrir félagið?
„Góð spurning, ég get eiginlega ekki svarað því akkúrat núna. Það er bara eitt skref í einu og einn dagur í einu. Það er bara verið að skoða og ekkert klárt svo ég er FH-ingur akkúrat núna," sagði Viðar en er pottþétt að hann fari fyrir gluggalok úti?
„Það er líka góð spurning, það er verið að skoða allt og ég læt ykkur vita um leið og ég get svarað ykkur almennilega," svaraði hann en er tilboð á borðinu sem hann á eftir að segja já eða nei við?
„Nei, staðan er ekki þannig. Við erum með nokkra áhugasama en ekkert í hendi og ekkert ákveðið. Bíðum og sjáum."