„Þór/KA er með mjög gott lið en mér fannst við byrja leikinn mjög vel," sagði Amanda Andradóttir leikmaður Vals eftir 6 - 0 sigur á Þór/KA í Bestu-deild kvenna í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 6 - 0 Þór/KA
„Við sköpuðum fullt af færum og héldum vel í boltann og kláruðum færin. Þetta var mjög góður sigur," hélt hún áfram.
Amanda var frábær í liði Vals í kvöld og var að lokum valin maður leiksins. Var hún ekki sátt með sína frammistöðu?
„Jú, það er alltaf gaman að skora og leggja upp," sagði Amanda sem skoraði eitt og lagði upp fjögur, en hvort er skemmtilegra, að skora eða leggja upp?
„Úff, ég veit það ekki. Kannski að skora. Það skiptir engu máli svo lengi sem við vinnum, sköpum færi og skorum," sagði hún.
Amanda kom til Vals þegar félagaskiptaglugginn opnaði í júlí, hvernig finnst henni styrkleikinn í deildinni?
„Mér finnst deildin góð, það er fullt af góðum liðum. Ég hef ekkert spilað á Íslandi fyrr en núna og það er skemmtilegt að prófa það," sagði Amanda en er hún að hugsa um að fara aftur út?
„Já það er alltaf markmiðið en núna er fókusinn bara hér hjá Val og að standa mig vel hér."