Þjóðadeildin skiptir ekki öllu máli
Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrstu 80 mínúturnar í vináttulandsleiknum gegn Frakklandi fyrr í kvöld og er ánægður með frammistöðu liðsins.
Lestu um leikinn: Frakkland 2 - 2 Ísland
Jóhann Berg Guðmundsson og Alfreð Finnbogason komu báðir aftur inn í liðið eftir meiðsli og finnst Gylfa ánægjulegt og mikilvægt að fá þá aftur inn í hópinn.
„Þetta var fínasta frammistaða en þetta var æfingaleikur og maður fann að tempóið var minna en venjulega. Það er gríðarlega gott að hafa haldið þeim í skefjum í 80 mínútur en mjög svekkjandi að fá þessi mörk á sig í lokin," sagði Gylfi sallarólegur við Fótbolta.net að leikslokum.
Það ætlaði allt að sjóða uppúr undir lok leiksins þegar Rúnar Már Sigurjónsson braut á Kylian Mbappe við hliðarlínuna og vakti mikla reiði heimamanna.
„Rúnar var aðeins of seinn í Mbappe. Auðvitað hefði hann stungið af hefði Rúnar leyft honum að fara, þannig ég skil hann alveg. Ég hefði sjálfur ekki nennt að elta hann niður hliðarlínuna.
„En auðvitað var hann aðeins of seinn og þetta gerist rétt fyrir framan bekkinn hjá þeim þannig þeir voru ekkert sáttir."
Gylfi telur landsliðið vera gírað upp fyrir leikinn gegn Sviss í Þjóðadeildinni og segir andrúmsloftið í hópnum hafa verið gott þrátt fyrir slaka frammistöðu í síðustu leikjum.
„Við vitum alveg að Þjóðadeildin skiptir ekkert öllu máli fyrir okkur. Við ætlum á EM 2020 og það er riðlakeppnin sem skiptir öllu máli."
Athugasemdir