„Gott að vinna. Þetta var ekki gott hjá okkur í fyrri hálfleik en mér fannst við setja kraft í þetta í seinni hálfleik. Skoruðum tvö mörk og hefðum getað skorað eitt eða tvö í viðbót en fyrst og fremst bara ánægður með að vinna erfiðan leik, það er mikilvægt“ sagði Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, eftir sigur gegn ÍBV fyrr í dag.
Lestu um leikinn: FH 2 - 1 ÍBV
Eins og Björn sagði sjálfur var margt ábótavant hjá FH liðinu í fyrri hálfleik og aðspurður hvort að Heimir hafi tekið hárblásarann í hálfleik segir hann léttur:
„Ég ætla nú ekki að fara segja neitt um það, hann stendur þarna. Jú, jú, hann lét okkur heyra það. Líka, þetta var 0-0 og svo tek ég aukaspyrnu fljótt sem endar í einhverju skrípamarki og erfiðara að koma til baka úr 1-0. Svona er fótbolti stundum, stundum þarf maður að láta öskra aðeins á sig til að koma sér í gang.“
FH eru í hörkubaráttu um 4. sætið sem er líka mögulegt Evrópusæti og sigurinn í dag gaf sterka þrjá punkta í þeirri baráttu, FHingar hljóta að horfa löngunaraugum á fjórða sætið?
„Við viljum fara í alla leiki til að vinna þá og safna eins mörgum stigum og við getum og vonandi skilar það okkur eins hátt og mögulegt er í töflunni. Við þurfum að fara að tengja saman sigra, þetta hefur verið upp og niður þrátt fyrir ágætar frammistöður í síðustu leikjum. Þetta snýst um að vinna leikina og við gerðum það í dag.“
Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.