Guðni Eiríksson, þjálfari FH. Hann lenti í smá hjólaslysi á dögunum en var samt auðvitað mættur á hliðarlínuna í kvöld.
„Við förum vissulega héðan með núll stig og það er tölfræðin sem telur. Frammistaðan var heilt yfir flott hjá stelpunum," sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir 4-1 tap gegn Þrótti í fyrstu umferð Bestu deildarinnar.
„Fyrsti leikur er búinn og áfram gakk."
„Fyrsti leikur er búinn og áfram gakk."
Lestu um leikinn: Þróttur R. 4 - 1 FH
Nýliðar FH gerðu klaufaleg mistök sem leiddu til þess að þær voru 2-0 undir í hálfleik. Í seinni hálfleik spiluðu þær lengst mjög vel og voru óheppnar að jafna ekki í 2-2. FH er spáð neðsta sæti á meðan Þrótti er spáð fjórða sæti.
„Mér fannst liðið spila bara vel en að sama skapi er það ekkert nýtt undir sólinni. FH-liðið er búið að spila svona leik eftir leik. Þetta er bara stíll FH-liðsins."
FH tilkynnti í morgun að félagið væri búið að semja við tvo nýja miðverði um að leika með liðinu í sumar, þær Arna Eiríksdóttir og Heidi Samaja Giles gengu til liðs við félagið. FH hefur verið að leitast eftir því að styrkja miðvarðarstöðuna þar sem Maggý Lárentsínusdóttir er ólétt. Félaginu tókst á endanum að fá Örnu og Heidi. Þær komu seint inn en fóru báðar beint inn í byrjunarliðið í dag.
„Við vissum alveg gæði þeirra tveggja. Þær vildu hjálpa liðinu. Við vonuðumst til þess að þær myndu smella strax í liðið og í leikstílinn. Ég er mjög ánægður með þeirra framlag því það er ekki auðvelt að fara beint í djúpu laugina með nýju liði og nýjum liðsfélögum. Mér fannst þær standa sig gríðarlega vel á móti öflugum framherjum Þróttar," sagði Guðni en hann getur tekið margt jákvætt úr þessum leik.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir