
Ísland tapaði 2-1 fyrir Sviss í Þjóðardeild UEFA á Laugardalsvelli í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í kvöld, segir að það sé erfitt að koma til baka gegn liði eins og Sviss.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 2 Sviss
„Auðvitað er svekkjandi að lenda 2-0 undir gegn svona liði, ef þeir komast yfir nýta þeir sér það og eftir að þeir skora verðum við að fara framar og þá ná þeir að nýta sér það."
Gylfi sagði markmanninn hafa verið góðan hjá Sviss en þeir hafi átt að skora allavega eitt mark í viðbót. Þá sagði Gylfi að hann trúi því að það styttist í næsta sigur.
„Hann var fínn og átti alveg nokkrar góðar vörslur en ef ég segi alveg eins og er þá verðum við að skora eitt mark í viðbót. Það er ekkert skemmtilegt að tapa leikjum en við höfum spilað vel á undanförnu og það styttist í að við förum að vinna leiki aftur."
Gylfi kallaði á boltasækjarana að slaka á þegar Sviss var að sækja hratt í fyrri hálfleik og sagði að það hefði verið til þess að Sviss næði ekki skyndisókn.
„Ég var að biðja þá um að taka sér tíma í að kasta boltanum inná, þeir eru með fljóta menn inná og það gerir okkur erfiðara fyrir ef þeir fá boltann strax."
Athugasemdir