
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var svekktur eftir 4-0 tap gegn heimsmeisturum Frakklands á Stade de France í kvöld.
Lestu um leikinn: Frakkland 4 - 0 Ísland
„Maður hafði fína tilfinningu fyrr í leiknum. Fyrri hálfleikurinn spilaðist bara eins og hann spilaðist, mér fannst við vera nokkuð fínir. Við gáfum ekki mörg færi á okkur og markið sem að við fengum á okkur komum við venjulega í veg fyrir," sagði Aron eftir leikinn.
„Seinni hálfleikurinn var bara eins og fyrri hálfleikurinn á EM fannst mér. Þeir komust alltof mikið aftur fyrir okkur og við vorum ekki á tánum. Við kannski bárum of mikla virðingu fyrir þeim, þetta var bara illa tapað hjá okkur."
Annað mark Frakka kom ekki fyrr en á 68. mínútu þegar Olivier Giroud setti boltann í netið.
„Það komst kannski inn í hausinn á manni að við vorum í séns og þurftum bara eitt fast leikatriði til þess að skora. Mér fannst við bíða of lengi en við lærum af þessu. Það eru tveir mikilvægir leikir í sumar sem verða að vinnast, svo einfalt er það."
Ísland spilaði með fimm manna varnarlínu í kvöld en Aron Einar vill ekki skrifa tapið á leikkerfið.
„Nei, við höfum gert þetta áður. Við fórum vel yfir það, við getum ekki kennt kerfinu um. Við vorum bara á hælunum, sérstaklega í seinni hálfleik. Þeir fengu tíma á boltann og refsuðu okkur í síðari hálfleik."
Ísland leikur tvo mikilvæga leiki gegn Tyrklandi og Albaníu í sumar.
„Við vitum mikilvægi þessara leikja. Við þurfum að gera Laugardalsvöll aftur að okkar vígi. Við þurfum að vinna þessa leiki ef að við ætlum okkur aftur á EM. Við erum svekktir í kvöld en svo er bara gamla góða tuggan, upp með kassan og áfram gakk."
Viðtalið við Aron Einar má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir