KA og Fjölnir skildu jöfn í lokaleik riðils 3 í Lengjubikarnum í dag. Leikið var í Boganum á Akureyri og lauk leiknum með 1-1 jafntefli.
„Þetta var ekki okkar besti leikur. Ég er ánægður með margt, það var nokkrum sinnum sem að við fengum stöður sem að við hefðum getað gert betur í. Ég held að jafntefli sé bara sanngjörn niðurstaða," sagði Óli Stefán, þjálfari KA, eftir leikinn í dag.
Óli er ánægur með undirbúningstímabilið hjá KA.
„Já, í heild sinni. Það er auðvitað búnar að vera miklar breytingar hjá okkur. Nýtt teymi og margir nýjir leikmenn. Áherslurnar eru að koma inn í leikina og við höfum fengið góð úrslit, ekki ennþá tapað í vetur og það er alltaf jákvætt. Við eigum helling eftir."
Markmið KA er að gera betur en liðið gerði í fyrra.
„Taka utan um það sem við erum að gera vel og ná því í gegn sem fyrst. Vonandi náum við að gera betur en KA gerði í fyrra."
KA er komið í undanúrslit Lengjubikarsins og mætir þar ÍA á fimmtudaginn.
„Nú eru undanúrslit framundan í þessari keppni gegn frábæru liði Skagans. Það verður mikil áskorun fyrir okkur að fara þangað, þeir hafa verið frábærir í vetur. Þetta er ákveðið próf fyrir okkur að mæta ÍA. Síðan förum við beint þaðan til Tyrklands í tíu daga, það er kærkomið."
Viðtalið við Óla Stefán má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir